Icelandair, Easyjet og Norwegian mun bjóða þeim sem áttu bókað sæti með Wow air afslátt af farmiðum. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu. Þá hyggst Icelandair aðstoða áhafnir Wow air við að komast heim þeim að kostnaðarlausu.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að boðið verði upp á fast gjald fyrir farþega til eða frá Evrópu sem verði 60 Bandaríkjadalir aðra leiðina með tösku og 100 Bandaríkjadalir til eða frá Bandaríkjunum, fyrir utan skatta og gjöld. Fargjöldin verði í boði næstu tvær vikurnar fyrir farþega sem áttu bókað með WOW frá 28. mars til 11. apríl. Farþegar þurfi að framvísa WOW air flugmiða við bókun.

Jafnframt segir í fréttatilkynningu frá Icelandair að félaginu hafi borist ábendingar um hækkun fargjalda í kerfunum hjá félaginu sem félagið segir vera vegna sjálfvirkni í kerfum sínum:

„Við viljum árétta að engar verðbreytingar eru að eiga sér stað hjá Icelandair. Verð á flugmiðum miðast við eftirspurn og síðustu daga og vikur hefur verið mikil ásókn í flug hjá okkur og nú vegna þeirra afsláttarfargjalda sem við erum að bjóða farþegum WOW. Í einhverjum tilfellum eru einungis sæti á efsta farrými laus eða flug fullbókuð.“

Farþegar Wow air kunna einnig að eiga möguleika á afsláttarfargjöldum með öðrum flugfélögum líkt og raunin varð þegar Primera Air varð gjaldþrota í október. Þá aðstoðuðu fjöldi flugfélaga farþega við að komast aftur til síns heima á lægri fargjöldum.

Samgöngustofa hefur einnig birt samantekt á réttindum þeirra sem áttu bókaðan flugmiða með Wow air.

Réttindi farþega samkvæmt Samgöngustofu:

  • Hvernig kemst ég á áfangastað?

Farþegum er bent á að kanna möguleika á flugi hjá öðrum flugfélögum. Athugið að sum flugfélög kunna við þessar aðstæður að bjóða farþegum aðstoð í formi björgunarfargjalda. Upplýsingar um þau félög verða birtar um leið og þær liggja fyrir.

  • Hver eru réttindi mín?

Farþegum sem keyptu flugmiða með kreditkorti er bent á að hafa samband við útgefanda kortsins til að kanna möguleika á að fá flugmiðann endurgreiddan.

Farþegar sem keyptu ferðina af evrópskum ferðaskipuleggjanda sem seldi flugmiðann sem hluta af svokallaðri alferð (þ.e. samsettri ferð þar sem flug er selt ásamt gistingu eða öðrum þjónustuþáttum) eiga rétt á heimflutningi á grundvelli samevrópskra reglna um alferðir. Farþegum er bent á að hafa samband við þann ferðaskipuleggjanda sem þeir keyptu ferð sína af.

Farþegar kunna jafnframt að eiga kröfu á hendur WOW AIR, m.a. á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega. Þegar um gjaldþrot er að ræða þarf að lýsa slíkum kröfum í þrotabú flugrekandans.