Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Loftleiðum, dótturfélagi Icelandair Group, segir að félagið hafi hvorki staðfest né hafnað hugmyndum stjórnvalda á Grænhöfðaeyjum um að þjónustusamningur við TACV, ríkisflugfélagið á eyjunum, yrði greiddur með hlutum í félaginu sjálfu.

Fjármálaráðherra Grænhöfðaeyja, Olavo Correia, hefur eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá , fullyrt í yfirheyrslum í þinginu að það væri áhugi af hálfu Icelandair að eignast hlut í félaginu. „Greiðslurnar, auðvitað, verða ekki inntar af hendi með fjármagni heldur verður þeim breytt í þátttöku þegar af einkavæðingunni verður,“ sagði Correia.

Erlendur segir að nú vinni bandarískt fyrirtæki að verðmati á félaginu og ákvörðun þurfi að liggja fyrir í lok maí. Icelandair býðst kaupréttur í félaginu í tengslum við þjónustusamning sem gerður var um uppbyggingu á flugfélaginu með tengipunkti á eyjunum fyrir flug yfir hafið að íslenskri fyrirmynd.

„Þrátt fyrir orð þessa ráðherra, þá hefur hvorki Loftleiðir né Icelandic Group tekið ákvörðun um aðra aðkomu að Grænhöfðaverkefninu heldur en þann ráðgjafasamning sem er fyrirliggjandi og það miðast við það að fyrir hann verði greitt í peningum.“