Icelandair mun í sumar bjóða brottför og komu í millilandaflugi sínu á Akureyri.. Um er að ræða beint flug snemma morguns frá Akureyri til Keflavíkur og flug síðdegis frá Keflavíkur flugvelli norður, segir í tilkynningu frá félaginu.

"Við notum Keflavíkurflugvöll sem miðstöð í miklu leiðakerfi sem nær milli 25 borga Norður-Ameríku og Evrópu og nú bætum við Akureyri í hópinn. Þessi hluti leiðarinnar verður inni í heildarfargjaldinu, líkt og þegar fólk kaupir flug með millilendingu í Keflavík á leiðum okkar milli Evrópu og Norður-Ameríku," segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Icelandair.

Farþegar munu innrita sig og farangur sinn á Akureyri og fara þar í gegnum tollskoðun og koma inn í Leifsstöð með sama hætti og millilandafarþegar. Sama fyrirkomulag verður síðdegis þegar farþegar koma erlendis frá. Þá fara þeir beint um borð í flugvélina norður og fá farangur sinn og fara í gegnum tollskoðun á Akureyri.

Farþegar fljúga til og frá Akureyri með 37 sæta Dash-8 flugvél Flugfélags Íslands og tengjast beint við millilandaflug Icelandair í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þessi þjónusta hefst 15. júní og stendur til loka ágúst, segir í tilkynningu frá félaginu.

Flogið verður á mánudögum, fimmtudögum og föstudögum og verður brottför frá Akureyri kl. 05:50 og lent í Keflavík kl. 06:40. Síðdegis verður brottför frá Keflavík kl. 18:00 og koma til Akureyrar kl. 18:50.