Ný flugvél bættist í flota Icelandair Cargo, dótturfélags Icelandair Group, um helgina með komu fjórðu Boeing 757-200 fraktvélar félagsins. Flugvélinni var breytt úr farþegaflugvél hjá Precision fyrirtækinu í Bandaríkjunum og er leigð til sex ára segir í tilkynningu félagsins. Flugvélin verður aðallega notuð í alþjóðlegt leiguflug með frakt en mun einnig styðja við áætlunarflug Icelandair Cargo til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið. Burðargeta vélarinnar er 32 tonn.

Icelandair Cargo hefur rekið Boeing 757-200 fraktvélar síðan 1999 og undirbýr félagið breytingu á fimmtu vélinni sem mun koma í rekstur síðar á árinu. Framkvæmdastjóri Icelandair Cargo er Pétur J. Eiríksson.