Icelandair Cargo mun fjölga verulega ferðum með fraktvélum til og frá Íslandi og er áætlunin stærri en nokkru sinni fyrr. Er þetta nokkur breyting frá vetraráætlun félagsins fyrir 2005. Má sem dæmi nefna að ferðum til og frá Liege í Belgiu fjölgar úr átta í ellefu á viku.

Þessi fjölgun er sérstaklega til að mæta auknum innflutningi. Liege hefur byggst upp sem helsti innflutningsflugvöllur fyrir Ísland í Evrópu,en einnig dreifistöð fyrir íslenskan fisk, enda er hann vel staðsettur við helstu hraðbrautir. Allt flug til Liege er frá Íslandi að kvöldi og koma er snemma morguns til Keflavíkur.
Ferðum til og frá New York, JFK, fjölgar úr fimm í sex á viku. Viðbótarferðin er á laugardegi og hefur viðkomu í Halifax í bakaleið á sunnudagsmorgni. Innflutningur hefur farið vaxandi frá Bandaríkjunum auk þess sem mikil eftirspurn er á kanadískum humri í Evrópu.

Þá bætist við fjórða ferðin í viku til Humberside auk einnar ferðar á Edinborg og East Midlands hvorn stað. Er þá fraktflug til Bretlands alla daga nema sunnudaga.

Allt fraktflug er á Boeing 757-200 fraktvélum, en þrjár slíkar eru í rekstri hjá Icelandair Cargo.