Frá og með 10. október næstkomandi mun Icelandair Cargo hefja nýtt vikulegt fraktflug milli Keflavíkur og Stokkhólms. Flogið verður alla miðvikudagsmorgna frá Keflavík til Stokkhólms á Boeing 757-200 fraktvél og svo aftur til Keflavíkur sama dag að því segir í tilkynningu.


Frá Keflavík er áætlað að fljúga með með lifandi hross og annan útflutning auk fraktar sem á uppruna sinn í Bandaríkjunum. Frá Stokkhólmi er áætlaður almennur innflutningur til Íslands en megin uppistaða fraktar verður þó áframflutningar í flugkerfi Icelandair Cargo frá Keflavík til New York, Icelandair Cargo hefur til þessa þjónað Skandinavíu markaði með fraktflugi um helgar frá Svíþjóð og svo áfram til Bandaríkjanna auk þeirrar flugfraktar sem flutt er með farþegavélum í áætlunarkerfi Icelandair milli Skandinavíu og Íslands.


Nýtt vikulegt flug á miðvikudögum er hrein viðbót á þessum markaði og eykur framboð og þjónustu til muna. Stokkhólmur er hentugur staður fyrir flugfrakt vegna góðra tenginga við öflugt vega áætlunarkerfi til að sækja eða afhenda flugfrakt til allra Norðurlandanna auk Eystrasaltslanda.


Auk þessa nýja fraktflugs hefur Icelandair Cargo til skoðunar áætlanir um eitt flug til viðbótar á Skandinavíu markað og er það liður í áframhaldandi uppbyggingu markaða og þjónustu félagsins.