Úrvalsvísitala kauphallarinnar hefur lækkað um 3,60% það sem af er degi. Icelandair vegur hvað þyngst í þessum lækkunum en gengi bréfanna hefur fallið um allt að 8% í tæplega 640 milljón króna viðskiptum.

Gengi bréfanna er nú 27,90 krónur. Hlutabréfin náðu hápunkti 28 apríl 2016, en þá kostaði hver hlutur um 38,90 krónur. Á seinustu fimm dögum hafa bréfin lækkað um 13,7% og frá ársbyrjun um allt að 21%.

Fallið má rekja til versnandi afkomuspár, en seinast þegar afkomuspáin versnaði, dró Icelandair markaðinn einnig niður.

Hlutabréf í Marel hafa einnig lækkað. Uppgjörið, sem félagið birti í gær, sló öll önnur met, en þó voru nokkrir varnaglar í tilkynningunni. Bréfin hafa lækkað um 2,10% í 403 milljón króna viðskiptum.

Eina félagið sem hefur hækkað núna fyrir hádegi er stoðtækjaframleiðandinn Össur. Bréfin hafa hækkað um 2,35%. Velta bréfanna hefur þó verið afar lítil.