Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland hefur fallið um 6,57% í morgun. Viðmælendur Viðskiptablaðsins á markaði segja lækkunina koma til vegna hruns á gengi bréfa Icelandair. Þegar þetta er ritað hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 22,85% í 291 milljón króna viðskiptum.

Icelandair sendi frá sér drög að ársuppgjöri ársins 2016 og spá fyrir árið 2017, þar sem kemur fram að EBITDA ársins 2016 verði á bilinu 210 til 220 milljónir dollara en á árinu 2017 verði hún einungis 140 til 150 milljónir dollara.

Í tilkynningu Icelandair til markaðarins segir: „Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár. Þessa þróun má einkum rekja til aukinnar samkeppni en einnig má leiða líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóðastjórnmálum hafi áhrif á eftirspurn.  Að auki hafa gjaldmiðlar þróast á óhagstæðan máta miðað við fyrra ár, olíuverð hefur hækkað og verkfall í sjávarútvegi hefur neikvæð áhrif á fraktstarfsemi félagsins.“

Önnur félög finna stinginn

Önnur félög á markaði fara ekki varhuga af þessum sviptingum á hlutabréfamarkaði. Gengi bréfa Eimskipafélagsins hafa til að mynda lækkað um 4,27% gengi bréfa Marel hafa lækkað um 3,93% í 169 milljón króna viðskiptum og gengi bréfa Össurs lækkað um 5,13% í 4 milljón króna viðskiptum.