*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 26. febrúar 2013 10:40

Icelandair dýrast og Wow air ódýrast

Verðkönnun Dohop leiðir í ljós að á fjórum flugleiðum er Icelandair dýrasti kosturinn og Wow air ódýrastur.

Ritstjórn

Verðkönnun Dohop fyrir febrúar sýnar að hækkun er á verði á flugi milli mánaðanna janúar og febrúar, um 9% að meðaltali. Verð til Kaupmannahafnar og Osló hækkar um 31% og 46% á milli mánaða á meðan verð á flugi til London og Manchester lækkar umtalsvert. Á því tímabili sem könnunin nær yfir er samkeppni um flug til fjögurra áfangastaða; Kaupmannahafnar, London, Manchester og Osló.

Af þeim fjórum flugleiðum sem Icelandair flýgur er félagið dýrast í öllum tilvikum. Á þeim leiðum sem Wow air flýgur og er í samkeppni við aðra voru þeir ódýrastir. Norwegian og SAS bjóða best til Osló, en hafa ber í huga að Norwegian rukka aukalega fyrir farangur.

Athygli vekur að á þeim leiðum þar sem samkeppni ríkir hvað helst, til London og Osló, lækkar verðið umtalsvert annars vegar og hækkar mikið í hinu tilvikinu. Það virðist því ekki vera samkeppnin sem ræður því hvort verð á flugi sé dýrt eða ódýrt. Flugfélögin fara brátt að fjölga áfangastöðum og önnur flugfélög á borð við Delta, Lufthansa og Air Berlin hefja áætlunarflug til Íslands. Það leiðir ef til vill til lægra verðs á flugi, að því er segir í tilkynningu frá Dohop.

 

 

Stikkorð: Icelandair Flug Dohop WOW air Verðkönnun Dohop