Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir félagið ekki hafa átt í viðræðum við önnur stéttarfélög en Flugfreyjufélag Íslands um nýjan kjarasamning fyrir flugfreyjur og flugþjóna. Yfirlýsingin kemur í kjölfar frétta í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun að til skoðunar hafi komið innan Icelandair að semja við flugfreyjur og flugþjóna utan Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ), jafnvel með stofnun nýs stéttarfélags.

Yfirlýsingin var gefin út af kröfu samninganefndar flugfreyjufélagsins og var skilyrði þess að hægt væri að halda viðræðum félagsins við Flugfreyjufélagið áfram. Yfirlýsingunni var deilt með félagsmönnum FFÍ og Viðskiptablaðið hefur hana undir höndum.

Icelandair hefur gefið út að brýnt sé að ná samningum fyrir hluthafafund á föstudaginn þar sem óskað verður eftir heimildar frá hluthöfum að sækja nærri 30 milljarða króna í nýtt hlutafé. Bogi segist vonast til að farsæl niðurstaða náist í viðræðunum. „Tímapressan er vissulega orðin mikil, og óvenjulegt að vinna að gerð kjarasamnings undir slíkri pressu, en nú eru uppi fordæmalausar aðstæður sem ekki hafa komið upp áður í sögu félagsins,“ segir Bogi í yfirlýsingunni.