*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 6. desember 2019 17:54

Icelandair ekki hærra síðan 1. ágúst

Ríflega helmingshækkun bréfa flugfélagsins síðan í október, 5,5% í dag. Grænn og vænn dagur í Kauphöllinni.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,29% í 2,6 milljarða heildarveltu á markaðnum í dag, og fór hún í 2.144,91 stig. Einungis eitt félag, Reitir, lækkaði í virði í kauphöllinni í dag, en lækkun félagsins nam 0,34%, niður í 73,60 krónur, í 229 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt var þriðja mesta veltan með bréf í einu félagi í dag.

Mesta veltan var eftir sem áður með bréf Marel, eða fyrir 580 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 1,40%, í 617 krónur.
Næst mesta veltan var með bréf Símans, eða fyrir 342 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 1,13%, í 5,38 krónur.

Mesta hækkunin var á gengi bréfa Icelandair, sem hækkuðu um 5,50%, í 176 milljóna króna veltu og fór gengið í 8,44 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá nú síðdegis virðist áætlun félagsins um að leggja áherslu á farþega á leið til Íslands frekar heldur en yfir Atlantshafið vera að ganga eftir.

Hefur lokagengi bréfa félagsins ekki verið hærra síðan 1. ágúst síðastliðin þegar það var í 9,28 krónum, en strax daginn eftir lækkaði það niður í 8,4 krónur. Fór það lægst 21. október síðastliðinn, en síðan þá hefur gengið hækkað um 53,5%.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Eimskipafélagsins, sem hækkaði um 3,59%, upp í 187,50 krónur, í 139 milljóna króna viðskiptum. Loks var 1,61% hækkun gengis Kviku banka sú þriðja mesta í kauphöllinni í dag, síðasta opnunardag hennar í vikunni, og fór það í 10,08 krónur í 103 milljóna króna viðskiptum.

Evran stóð í stað gagnvart íslensku krónunni, en danska krónan veiktist um 0,01%, í 17,927 króna kaupgengi. Aðrar helstu viðskiptamyntir styrktu sig gagnvart krónunni.  Bandaríkjadalurinn hækkaði um 0,43%, í 121,21 krónu og Pundið um 0,1%, í 159,04 krónur.