Icelandair hækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni í dag, um 3,31% í 513 milljón króna veltu. Gengi hlutabréfa félagsins endaði í 1,87 krónum á hlut, en svo hátt hefur gengi bréfanna ekki verið síðan í júlí árið 2020. Flugfélagið Play hækkaði um 1,21% á First North markaðnum. Áhyggjur fjárfesta af Ómíkron afbrigði Covid-19 virðast hafa dvínað að undanförnu.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,48% í 6,1 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Mest viðskipti voru með bréf í Marel í dag, upp á rúmlega 1,3 milljarða króna. Næst mesta veltan var með bréf í Festi upp á rúmlega 1,2 milljarða króna. Bréf félaganna beggja hækkuðu umfram eitt prósent.

Brim lækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni í dag, um 1,9% í rúmlega 380 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa í Arion banka og Kviku banka lækkuðu einnig umfram 1 prósent.