Miklar lækkanir voru á hlutabréfamarkaði í kauphöllinni í dag, og lækkaði Úrvalsvísitalan um 3,51%, niður í 1.763,30 stig, í 5,8 milljarða króna heildarviðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun byrjaði dagurinn með miklum lækkunum samhliða því að kauphöllin breytti reglum vegna væntinga um miklar sveiflur í dag.

Um tíma nam lækkun Icelandair yfir 9% í dag, og gengið var þá komið niður í 4,81 krónu, en lækkunin fór nokkuð til baka undir lok viðskiptadagsins og nam gengislækkun félagsins um 3,96% þegar upp var staðið, í 5,09 krónum. Það er samt um 3,6% lægra en þegar gengið fór lægst á síðasta árinu, eða 21. október síðastliðinn, þegar það nam 5,5 krónum. Gengi bréfa Icelandair hefur ekki verið lægra frá því í janúar 2010 eða í rúm 8 ár.

Mesta lækkunin var á gengi bréfa Origo, eða um 5,97%, niður í 22,05 krónur, en í litlum viðskiptum, eða fyrir 10 milljónir króna. Einungis voru minni viðskipti með bréf Heimavalla, eða fyrir 5 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins lækkuðu jafnframt minnst, eða um 1,48%, niður í 1,33 krónur.

Næst mest lækkun var hins vegar á bréfum Kviku banka, eða um 5,97%, niður í 7,91%, í 713,5 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi.

Einu bréfin sem voru í meiri viðskiptum voru með bréf Marel, eða fyrir 1.285 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins lækkuðu um 3,15%, niður í 492 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í dag hefur félagið gert víðtækar breytingar á stjórnendateymi sínu.

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Festi, eða fyrir 707,5 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins lækkuðu um 2,97%, og nam lokagengi þeirra 114,50 krónum.

Gengi evrunnar styrktist töluvert gagnvart íslensku krónunni í dag, eða um 1,94%, og fæst hún nú á 145,32 krónur, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í dag hefur gengi krónunnar ekki verið lægra gagnvart henni frá árinu 2015.

meðan gengi japanska jensins styrktist enn meira, eða um 3,57%, í 1,2408 krónur. Gengi breska pundsins styrktist um 1,50%, í 166,63 krónur meðan gengi Bandaríkjadals styrktist um 0,77%, í 127,18 krónur.