Icelandair skar sig úr á aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag en gengi bréfa félagsins lækkaði um tæplega 14 prósent í viðskiptum dagsins. Hluturinn lokaði í 2,5 og hefur gengið ekki verið lægra síðan í nóvember 2009.

Mest velta var med bréf í Marel, 430 milljónir króna, en gengi félagsins stóð í stað. Veltan í dag var annars ekki mikil eða kringum 865 milljónir króna. Næst mest viðskipti voru með bréf Icelandair, 163 milljónir króna.

Meirihluti félaganna lækkaði í dag. Næstmest lækkun var hjá Eik, 3,63%, en félagið skilar uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung næsta miðvikudag. Arion lækkaði um 2,48% og Reitir um 2,34%. Eimskip og Festi lækkuðu bæði, hið fyrrnefnda um rúmlega 1,5% og hið síðarnefnda um 1,26%, í samanlagt sjö milljón króna viðskiptum. Önnur félög lækkuðu minna.

Fjögur félög hækkuðu. 1,7% hækkun Sýnar var hæsta græna tala dagsins en viðskipti með bréf félagsins námu fjórum milljónum. Hagar hækkuðu um tæplega 1,2% í helmingi minni viðskiptum. Kvika og Sjóvá hækkuðu síðan bæði lítillega. Þá stóð gengi bréfa í Brim óhaggað.