Icelandair hefur uppfært áætlun sína og gerir núna ráð fyrir að samkomulag við alla samstarfsaðila sína vegna endurskipulagningu á fjárhag félagsins liggi fyrir þann 29. júní næstkomandi. Áður stóð til að samkomulagi yrði náð í dag, 15. júní. Gert er ráð fyrir að hlutafjárútboð hefjist í kjölfarið á samkomulagi. Þetta kom fram í tilkynningu frá félaginu sem birt var í kauphöll í dag.

Viðræður við íslensk stjórnvöld vegna mögulegrar lánalínu eða tryggingar láns til félagsins eru á áætlun. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins að uppfylltum vissum skilyrðum, þar með talin aðkomu allra hagaðila að verkefninu og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

Nýir kjarasamningar við stéttarfélög flugmanna og flugvirkja hafa þegar verið samþykktir en samningar hafa ekki náðst við Flugfreyjufélag Íslands.

Samningaviðræður við Boeing vegna MAX véla og útistandandi bóta vegna kyrrsetningar vélanna standa yfir og að sögn félagsins miða viðræðum ágætlega. Viðræður við lánveitendur, flugvélaleigusala, færsluhirða, mótaðila í olíuvörnum, birgja og aðra eru í gangi.

Eins og fram hefur komið stendur fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group yfir með það að markmiði að tryggja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar. Félagið vinnur að þessu verkefni í samstarfi við stéttarfélög, Boeing, lánveitendur, flugvélaleigusala, birgja, aðra hagaðila og íslensk stjórnvöld.

Að sögn félagsins hafa viðræður gengið að mestu ágætlega. Áhyggjuefni er að samningar hafi ekki náðst við Flugfreyjufélag Íslands en óljóst er hvort lengra verði komist í þeim viðræðum.