„Það er beinlínis röng forsenda að gefa sér að ef Icelandair hætti rekstri verði ekki starfrækt flugfélag sem notar Keflavíkurflugvöll sem tengipunkt milli Evrópu og Bandaríkjanna. Reynsla undanfarinna ára sýnir að fleiri en Icelandair geta byggt upp slíka starfsemi á undraskömmum tíma – með talsvert minni tilkostnaði,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í Facebook-færslu.

Þar vitnar hann í umfjöllun Markaðarins um áhættu lífeyrissjóðanna af þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair. Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, bendir á í viðtali við Markaðinn að ef ekkert flugfélag starfi með Keflavíkurflugvöll sem tengipunkt muni það hafa neikvæð áhrif á verðmæti ýmissa eigna, meðal annars lífeyrissjóðanna. Þar nefnir hann að fjárfesta ekki í Icelandair, ásamt því að fjárfesta, geti falist mikil áhætta. Marinó er einn af ráðgjöfum Icelandir Group fyrir útboðið.

Sjá einnig: „Teflt á tæpasta vað“ hjá Icelandair

„Nú þegar er flugfélag klárt í startholunum að hefja millilandaflug með mjög skömmum fyrirvara þegar aðstæðurnar verða réttar. Sagan er full af dæmum um að aðrir geta á skömmum tíma tekið við hlutverki risa sem virtust ómissandi,“ segir Ólafur í lok færslunnar.

Við sömu færslu bendir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, á að umfang Icelandair sé talsvert meira en Íslendingar þurfa til þess að tryggja flugsamgöngur. Viðskiptalíkan Icelandair byggir á að flytja 8-10 milljónir manna um Keflavík en umferðin inn og út úr landinu sé um 1-2 milljónir.

Varpar hann því eftirfarandi spurningu fram: „Getur komið til þess að lífeyrissparnaður landsmanna verði notaður til þess að greiða niður flugferðir Ameríkana sem fara til London og París eða lundúnabúa og parísarbúa sem fara til New York eða San Francisco? [...] Hversu stórt þarf flugfélag að vera til þess að sinna þörfum Íslands fyrir flug til og frá landinu,“ segir Þórólfur.

Hlutafjárútboð Icelandair er fyrirhugað þann 16.-17. september næstkomandi og verða niðurstöður þess tilkynntar föstudaginn 18. september. Eins og er stendur hluthafafundur félagsins yfir þar sem farið er fram á að stjórn félagsins verði veitt heimild til hlutafjárhækkunar.

Sjá einnig: Kostnaður við útboðið 290 milljónir

Stefnt er að því að sækja 20 milljarða króna í útboðinu þar sem hver hlutur verður seldur á genginu einum. Verði umframeftirspurn er heimilt að bæta allt að þremur milljörðum hluta við. Ríkisbankarnir tveir: Íslandsbanki og Landsbankinn hafa sölutryggt þrjá milljarða hvor, að því gefnu að tilboð nái minnsta fjórtán milljörðum króna.