*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 4. október 2019 16:43

Icelandair ekki verið lægra síðan 2012

Flugfélagið annað tveggja sem lækkuðu í kauphöllinni í dag, en bréfin fóru í 6,33 krónur. Lægra lokagengi síðast í maí 2012.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Eva Björk Ægisdóttir

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,44%, upp í 1.894,63 stig í viðskiptum dagsins, en þau námu í heildina 827,4 milljónum króna.

Einungis tvö félög lækkuðu á Aðalmarkaði á nokkuð grænum viðskiptadegi, bæði í mjög litlum viðskiptum eða milli 8 og 9 milljóna, það er Arion banki sem lækkaði um 1,13% niður í 78,70 krónur og svo Icelandair sem lækkaði um 0,31% í 6,33 krónur. Hefur gengi lokagengi bréfa félagsins í kauphöllinni ekki verið jafnlágt síðan 18. maí árið 2012, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi.

Hins vegar var mesta lækkunin í kauphöllinni á bréfum Icelandic Seafood, sem eru á First north markaðnum, eða um 1,43% niður í 9,66 krónur. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst félagið skrá sig á Aðalmarkað og hefst almennt útboð á hlutabréfum þess 16. október næstkomandi.

Mest hækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 1,82%, í 43 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin í 9,50 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Brim, en bréf félagsins sem áður hét HB Grandi, hækkuðu um 1,68% í 39,25 krónur í 79 milljón króna viðskiptum.

Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa VÍS, eða um 1,43% í 57 milljóna króna viðskiptum, en lokagengi bréfanna var 10,64 krónur. Í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtækjum sem Viðskiptablaðið vann í samstarfi við Kelduna var sagt frá góðu rekstrarári félagsins á síðasta ári.

Mestu viðskiptin í kauphöllinni nú í lok vikunnar voru hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 166 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 0,18%, upp í 545 krónur. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Reita, eða fyrir 158 milljónir króna, en bréfin náðu upp í 71,60 krónur í 0,70% hækkun.

Enginn breyting varð á gengi krónunnar gagnvart evru, sem fæst nú á 135,25 krónur, en Bandaríkjadalur hækkaði gagnvart krónunni um 0,11% og fæst hann nú á 123,25 krónur. Hins vegar lækkaði breska pundið um 0,45% gagnvart krónunni og fæst sterlingspundið nú á 151,73 krónur.