Icelandair endurnýjar nú stjórnklefa í Boeing 757 flugþota félagsins. Fyrstu áætlunarflug eftir breytingar var í síðasta mánuði. að því er kemur fram í tilkynningu. Í henni kemur fram að Icelandair er fyrsta flugfélagið í Evrópu sem gerir þessar breytingar á Boeing 757 vélum sínum. Nýi tækjabúnaðurinn eykur öryggi flugsins, minnkar viðhaldskostnað og er auk þess léttar en eldri gerðin og sparar því eldnseyti, segir í tilkynningu.

„Boeing 757 flugvélarnar hafa reynst Icelandair afskaplega vel og henta leiðakerfi okkar frábærlega. Við erum í fararbroddi í þróun þessarar tegundar; við settum vænglinga (winglets) á vélar okkar fyrir nokkrum árum til að spara eldsneyti, við endurnýjuðum flotann með nýjum sætum og skemmtikerfi fyrir alla farþega, og nú er verið að framþróa stjórnklefana og bæta vinnuaðstöðu flugmanna,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu.

Ennfremur segir:

„Í eldri gerð stjórnklefa eru tveir svokallaðir túpuskjáir hjá hvorum flugmanni auk margskonar mæla sem flugvélinni er stýrt eftir. Í stað þessa búnaðar koma nú nýir stærri skjáir þar sem allar upplýsingar birtast, þar á meðal gervisjóndeildarhringur, sýn á fyrirhugaða flugleið, hraðamælir, hæðarmælir, fjölstefnuvitar, klukka og það sem flugmenn þurfa að nota í fluginu. Tvær tölvur eru í stjórnklefanum (Flight Management Computers)  sem flugmenn setja inn fyrirhugaða flugleið og nýi búnaðurinn sækir mun meiri upplýsingar úr tölvunum en áður var unnt og þessar upplýsingar birtast á þessum nýjum skjáum og bæta yfirsýn flugmannsins um framgang flugsins og stöðu vélarinnar.

Jafnframt þessari endurnýjun á stjórnborði flugvélanna er verið að ljúka við að setja svokallaðan "Data Link" búnað í flotann, en hann gerir stjórnstöð Icelandair á Keflavíkurflugvelli kleift að vera í stöðugu sambandi við flugvélarnar á flugi og á jörðu niðri hvar sem þær eru staddar í heiminum jafnframt því sem stjórnstöðin sér á skjám hjá sér staðsetningu flugvélanna á hverjum tíma í lofti og á jörðu niðri.   Þá er verið að ljúka við að setja myndavélar fyrir framan flugstjórnarklefa þannig að flugmenn geta séð á skjá hverjir hyggjast koma inn í flugstjórnarklefann.

„Með þessari uppfærslu á tækjabúnaði er stjórnklefi Boeing 757 flugvélanna okkar búinn fyrir flugumferðarstjórnunarkerfi framtíðar með auknum kröfum um nákvæmni og stöðugt streymi margþættra upplýsinga til og frá flugvélum.  Áður en flugmennirnir okkar setjast við nýju stjórntækin fara þeir á bóklegt námskeið og í verklega þjálfun, en eftir hana fljúga þeir báðum gerðum jafnhliða", segir Hilmar Baldursson, flugrekstrarstjóri Icelandair.

Tækniþjónusta Icelandair annast breytingar, en þær eru gerðar jafnt og þétt á Keflavíkurflugvelli samhliða reglulegum stærri tækniskoðunum flugvélanna. Alls verða breytingarnar gerðar á samtals 16 Boeing 757 farþega- og fragtvélum í flota félagsins.