Icelandair hefur ekki átt sjö dagana sæla síðustu ár. Félagið heldur naumlega fyrsta sætinu á lista Frjálsrar verslunar yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins – sem kom út í morgun og byggir á rekstrartölum síðasta árs – með 185 milljarða króna veltu. Ljóst má þó þykja að um drjúgt tekjufall verður að ræða þegar listinn byggður á rekstri á þessu ári kemur út á því næsta. Hlutabréf félagsins hafa fallið um 96% á fimm árum og um 82% bara á þessu ári.

Marel fylgir fast á hæla flugfélagsins með 176 milljarða veltu og 15% vöxt milli ára, á móti 13% hjá Icelandair, en veiking krónunnar á árinu vegur þar þyngst hjá báðum félögum, sem hafa svo til allar sínar tekjur í erlendum gjaldeyri.

Lengi getur vont versnað
Rekstur Icelandair var þegar orðinn þungur árið 2018, en það ár nam tap þess 6 milljörðum króna. Slíkt tap hefði líklega riðið flestum íslenskum félögum að fullu, en verandi stærsta félag landsins með langa sögu, sterka eigin- og lausafjárstöðu og mikið traust á mörkuðum, sigldi það inn í árið 2019 hóflega bjartsýnt, með fyrirætlanir um gagngerar breytingar og mikla hagræðingu, sem snúa átti rekstrinum við.

Icelandair
Icelandair
© vb.is (vb.is)

Árið í fyrra átti hins vegar eftir að reynast flugfélaginu gamalgróna – rétt eins og fluggeiranum almennt – erfiðara en við hafði verið búist. Þrátt fyrir gjaldþrot stærsta og eina eftirlifandi innlenda keppinautarins, Wow air, í mars (Primera Air hafði farið í þrot haustið áður), varð tap af rekstri Icelandair enn meira en 2018. Þetta á við jafnvel í Bandaríkjadölum talið, en vegna veikingar íslensku krónunnar á árinu varð enn meiri munur í krónum, og nam tapið yfir 7 milljörðum og jókst um 18%.

Eins og lesendum er kunnugt er orðið morgunljóst að afkoman verður ekki betri á þessu ári, þótt enn sé það ekki úti. Félagið stendur þrátt fyrir það nokkuð keikt þessa dagana eftir vel heppnað og langþráð hlutafjárútboð.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .