Icelandair mun auka framboð sitt um 17% og bæta við nýjungum í leiðakerfi sitt á næsta vori. Icelandair mun hefja flug til Bergen í Noregi, Gautaborg í Svíþjóð og Halifax í Kanada, en auk þess hefja flug að morgni til frá Keflavík til Boston og New York að því er segir í frétt félagsins.

Ekki verður flogið til San Francisco næsta sumar eins og gert hefur verið tvö undanfarin sumur.

"Við fögnum sjötíu ára afmæli félagins á næsta ári og ætlum að halda upp á það með því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á flugáætlun sem er sú langstærsta í sögu félagsins. Við ætlum að þétta flug okkar milli Íslands og Norðurlandanna, sem er okkar stærsti markaður, og opna í leiðinni alveg nýja möguleika á flugi okkar milli Norður-Ameríku og Evrópu", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair í tilkynningunni. Samkvæmt áætlun félagins verður boðið upp á um160 ferðir á viku hverri frá Íslandi, sem er það langmesta í sögu félagins og um 17% fjölgun ferða frá síðasta sumri.

Helsta nýbreytnin í flugáætlun félagsins er sú að næsta vor mun Icelandair fljúga frá Íslandi til Bandaríkjanna kl.10 að morgni, og bjóða upp á flug frá Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi klukkan átta að morgni til Íslands. "Eins og flestir þekkja þá byggir leiðakerfið okkar á ákveðinni 24 klukkustunda hringrás þar sem flugvélar okkar fara flestar til Evrópu að morgni, koma til baka síðdegis og fara síðan vestur um haf og lenda snemma morguns hér á landi. Nú ætlum við líka að bjóða upp á hina leiðina, þ.e. að fara frá Evrópu að morgni, áfram til Bandaríkjanna að morgni, koma frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu. Þetta er spennandi nýjung fyrir viðskiptavini okkar hér heima, í Evrópu og í Bandaríkjunum", segir Jón Karl.

"Með þessu erum við að leggja enn frekari grunn að fjölgun ferðamanna til Íslands. Þetta eykur að sjálfsögðu ferðavalkosti Íslendinga, en við erum þó einkum að hugsa um erlenda markaði, þaðan sem um 70% af tekjum okkar koma", segir Jón Karl.

Bergen, Gautaborg og Halifax eru nýir áfangastaðir

Icelandair mun hefja flug til Bergen í Noregi, Gautaborgar í Svíþjóð og Halifax í Kanada næsta vor. Flogið verður þrisvar til fjórum sinnum í viku á hvern stað. Flugið til Bergen og Gautaborgar bætist við fjölmargar ferðir félagsins til höfuðborga Norðurlandanna fjögurra, þ.e. Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms og Helsinki. Alls mun Icelandair fljúga að meðaltali um 10 sinnum á dag frá Íslandi til hinna Norðurlandanna á næsta sumri.

"Það hefur átt sér stað mikil uppbygging í ferðaþjónustu í Bergen á undanförnum árum og borgin er helsta miðstöð mikilla siglinga skemmtiferðaskipa um norsku firðina. Þessar siglingar eru mjög vinsælar meðal Bandaríkjamanna og með millilendingu í Keflavík getum við í samvinnu við ferðaþjónustuaðila og yfirvöld í Bergen boðið bestu leiðina milli Bandaríkjanna og borgarinnar og opnað nýja markaði. Við vitum líka að þessi flugleið hentar vel fyrir íslenskt og norskt viðskiptalíf", segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsviðs Icelandair.

Flugið til og frá Gautaborg er einkum hugsað til þess að bæta þjónustu við ferðamannamarkaðinn í Svíþjóð og styrkja markaðsstöðu Icelandair í landinu. "Við erum annarsvegar að bjóða Svíum upp á fleiri möguleika í ferðalögum til Íslands, og hinsvegar að festa Icelandair í sessi sem einn helsta valkost fyrir Norðurlandabúa á leið til Bandaríkjanna", segir Gunnar Már.

Þá verður flogið þrisvar sinnum í viku til Halifax í Kanada á næsta sumri. "Við höfum lengi haft áhuga á því að bjóða upp á flug milli Kanada og Íslands og takmarkanir á flugheimildum hafa hamlað uppbyggingunni. Nú verðum við vör við breytt viðhorf hjá kanadískum stjórnvöldum og fljúgum nú til Halifax á ný eftir nokkurra ára hlé. Borgin hefur verið vinsæl meðal Íslendinga, en einkum erum við með fluginu að opna fyrir leið milli Evrópu og Kanada", segir Gunnar Már.

Auk þess að taka upp flug til þessara þriggja nýju áfangastaða fyrirhugar Icelandair að auka tíðni í flugi til Parísar, Frankfurt, Berlín, Amsterdam og Helsinki frá því sem var á síðastliðnu sumri. "Við erum á sumrin að fljúga frá Íslandi til 25 áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum með mismunandi mikilli tíðni. Við erum stöðugt að endurskoða og fínstilla flugáætlunina með það í huga að bjóða viðskiptavinum hér á Íslandi, og um allan heim, góða þjónustu á arðbæran hátt. Ekki verður flogið til San Francisco á næsta sumri, eins og tvö undanfarin sumur, vegna þess að afkoman af flugleiðinni stóðst ekki væntingar okkar. Það er ljóst að heildarafkoma af rekstri Icelandair á þessu ári er mjög góð og við ætlum að gera enn betur á því næsta," segir Jón Karl Ólafsson segir í fréttinni.