Icelandair fær 10,1 milljarð króna eða 84 milljónir dollara fyrir Icelandair Hotels. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum í lok febrúar 2020 en ekki í árslok 2019 eins og upphaflega hafði verið stefnt að, samkvæmt tilkynningu frá Icelandair.

Söluferli hótela Icelandair hófst í maí 2018. Þann 13. júlí 2019 skrifaði stjórn Icelandair Group undir samning við dótturfélag Berjaya Land Berhad um kaup á 75% hlut í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum. Eitt af skilyrðum kaupanna var endurfjármögnun hótelfélagsins. Stjórn Icelandair Hotels skrifaði í dag undir samning við Arion Banka um 8 milljarða króna lán (65 milljónir Bandaríkjadala) þess efnis. Berjaya hefur nú þegar greitt Icelandair Group um 1,8 milljarð króna (15 milljónir Bandaríkjadala) eða um það bil 30% af kaupverði félagsins.

Inna á af hendi lokagreiðslu þann 28. febrúar 2020, og er tveggja mánaða seinkun sögð koma til vegna gjaldeyrishafta í Malasíu. Kaupandi hafi þegar lagt fram staðfestingu á fjármögnun eftirstöðva kaupverðsins og samþykkt að greiða 6% ársvexti af þeim. Komi til þess að eftirstöðvarnar verði ekki greiddar er samkomulag um vanefndagreiðslu upp á 1,2 milljarða króna (10 milljónir Bandaríkjadala) af hálfu kaupanda af því sem þegar hefur verið greitt og getur Icelandair Group þá rift kaupunum.

Heildargreiðslur til Icelandair Group vegna kaupanna eru um 10,1 milljarður króna (84 milljónir Bandaríkjadala). 1,8 milljarðar króna (15 milljónir Bandaríkjadala) hafa þegar verið greiddar, um 3,4 milljarðar króna (29 milljónir Bandaríkjadala) verða nú greiddir í kjölfar endurfjármögnunar Icelandair Hotels og lokagreiðsla að fjárhæð um 4,9 milljarðar (40 milljónir Bandaríkjadala) verður greidd þann 28. febrúar 2020.

Berjaya Land Berhad er skráð í Malasíu og starfar meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Berjaya Land Berhad og tengd félög eru með um 4.700 starfsmenn og nema árlegar tekjur samstæðunnar 1,76 milljarði Bandaríkjadala. Stofnandi og stjórnarformaður Berjaya Group er Vincent Tan, sem er einnig eigandi velska knattspyrnuliðsins Cardiff City.