*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 14. mars 2018 08:45

Icelandair fær hlut í ríkisflugfélagi

Fjármálaráðherra Grænhöfðaeyja segir að þjónusta Icelandair verði greidd með hlutum í ríkishlutafélagi eyjanna.

Ritstjórn
Jorge Carlos Fonseca forseti Grænhöfðaeyja fagnar kosningu sinni, en ríkisstjórn landsins hyggst einkavæða TACV, ríkishlutafélag landsins, sem er í nánu samstarfi við Icelandair.
epa

Olavo Correia, fjármálaráðherra Grænhöfðaeyja, segir að Icelandair muni fá greitt með hlutabréfum í TACV, ríkishlutafélagi landsins vegna þjónustusamnings um uppbygginginu leiðakerfis flugfélagsins.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðasta mánuði gerði Loftleiðir, dótturfélag Icelandair þjónustusamning við ríkisflugfélagið um að byggja upp og þjónusta flugfélagið. 

Er hugmyndin að byggja upp tengipunkt fyrir flug yfir Atlantshafið að íslenskri fyrirmynd, bæði til að styrkja ferðamennsku á eyjunum sem og til að ná til sín flugumferð milli Suður Ameríku og Evrópu, Norður Ameríku og Afríku, en eyjarnar liggja vel við flugi á milli heimsálfanna.

Sagði ráðherrann í yfirheyrslum í þinginu að nú standi yfir samningar um verðmat og greiðslur.

„Við erum í samstarfi við Icelandair og þjónustan er veitt á markaðsvirði,“ sagði fjármálaráðherrann þegar hann var spurður um einkavæðingu TACV að því er Aviator fréttasíðan segir frá.

„Greiðslurnar, auðvitað, verða ekki inntar af hendi með fjármagni heldur verður þeim breytt í þátttöku þegar af einkavæðingunni verður, sem gefur fyrirtækinu ákveðnar tryggingar.“

Nú um miðjan mánuðinn hefst sérstakt matsferli á fyrirtækinu sem hefur löngum búið við rekstrarerfiðleika og þurft á stuðningi ríkisins að halda.

„Það er áhugi af hálfu Icelandair að eignast hlut í félaginu. En ég get ekki lofað að því verði lokið á einum eða tveimur mánuðum. Ég vil að þetta verði orðið að veruleika eins fljótt og hægt er og ég er bjartsýnn á það, enn sem komið er, en ég get ekki gefið ykkur neinar tryggingar því um er að ræða samningaviðræður milli ríkisins og einkafyrirtækis.“

Stikkorð: Icelandair Grænhöfðaeyjar TACV