Stjórn Icelandair Group hefur ráðið alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Spencer Stuart annars vegar og Capacent á Íslandi hins vegar til þess að hafa umsjón með ráðningarferli á nýjum forstjóra félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

„Það er mikilvægt að vel takist til við ráðningu forstjóra félagsins. Staða þess er sterk en jafnframt krefjandi og við teljum það mjög spennandi verkefni að taka við stjórnartaumum félagsins á þessum tímapunkti. Með því að nýta okkur sérþekkingu og tengslanet erlendra og innlendra aðila vonumst við til þess að geta valið úr hópi framúrskarandi einstaklinga til þess að leiða félagið til framtíðar,“ segir Úlfar Steindórsson, formaður stjórnar Icelandair Group.

Spencer Stuart var stofnað árið 1956 og er meðal leiðandi ráðgjafarfyrirtækja í heiminum á sviði stjórnendaráðninga. Fyrirtækið er með 56 skrifstofur í 30 löndum. Thierry Lindenau, yfirmaður stjórnendaráðninga á sviði flugrekstrar hjá Spencer Stuart, mun leiða vinnu fyrirtækisins við ráðningu forstjóra Icelandair Group.

Capacent á Íslandi er hluti af Capacent Holding AB í Svíþjóð sem var upphaflega stofnað árið 1983. Hjá Capacent á Íslandi starfa um 50 ráðgjafar og mun Hilmar Hjaltason, ráðgjafi og meðeigandi hjá Capacent leiða verkefnið fyrir hönd Capacent.