Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í dag að leggja til við Alþingi að Icelandair yrði veitt lánalína eða ábyrgð á lánum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að samþykkt hafi verið að „ríkið væri tilbúið að eiga samtal um mögulega veitingu lánalínu eða ábyrgð á lánum til félagsins.“

Aðkoma ríkisins miðast við að árangur náist í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, þar með talið að sækja í nýtt hlutafé. Icelandair hefur undanfarnar vikur unnið að hlutafjárútboði.

Icelandair sagði upp yfir 2000 manns í vikunni í stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði á starfsmannafundi í síðustu viku að Icelandair hefði nægt lausafé út maí. Þá sagði Bogi að fyrir hlutafjáraukning og aðkomu ríkisins að samkeppnisstaða félagsins yrði tryggð. Viðræður um hlutafjáraukningu hafa hangið á því að samningar náist við helstu starfsstéttir Icelandair.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, vildi lítið gefa upp í viðtali í Kastljósi í kvöld umfram það sem sagði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Spurður sagði hann þó að upphæðirnar sem um ræðir væru töluvert hærri en 5-10 milljarðar króna.

Samhliða vinnu við hlutafjárútboð haldi viðræður áfram við stjórnvöld um mögulegri fyrirgreiðslu og skilmálar fyrir henni af hálfu stjórnvalda. Gangi áform Icelandair eftir hyggst ríkisstjórnin leggja fram þingmál um fyrirgreiðslu ríkisins lagt fyrir Alþingi til samþykktar.