Ísland er orðið dýrt í samanburði við mjög mörg önnur lönd. Við erum komin að ákveðinni stærð þannig að það getur orðið hagkvæmt að útvista eða flytja einhverja þætti. Við sjáum flugfélög gera það,“ segir Bogi Nils Bogason, sem tók við starfi forstjóra Icelandair Group, til bráðabirgða á mánudaginn, eftir að Björgólfur Jóhannsson sagði starfi sínu lausu.

Til  stendur að færa ákveðna þætti starfsemi í Icelandair til útlanda. „Við erum með dótturfélag í Eistlandi og höfum verið með til margra ára. Við höfum verið að bæta í þar og færa ákveðna einfalda þætti þangað. Við ætlum að halda áfram á þeirri vegferð. Það sér til dæmis um tekjubókhaldið fyrir Icelandair eins og það leggur sig og við höfum verið að færa ýmsa bókhalds- og bakvinnslu og ætlum að vinna áfram að því,“ segir Bogi.

Ekki stendur til að færa til áhafnir Icelandair sem áfram verða íslenskar að sögn Boga.

Afkoman óásættanleg

„Við sættum okkur ekki við afkomu eins og við erum að sjá í ár,“ segir Bogi. „Við höfum þegar gripið til aðgerða til að laga hluti sem fóru aflaga hjá okkur. Við teljum að næsta ár verði mun betra í okkar rekstri.  En það tekur smá tíma að laga þessa hluti,“ segir Bogi. „Aðallega ætlum við að laga innanhúshluti,“ segir Bogi og nefnir þar sölu- og markaðsmál félagsins auk kostnaðarþátta, t.d. megi ná fram betir nýtingu á vinnuafli félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .