Tíðindalítið var á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, ef undan eru skilin bréf Icelandair, sem féllu um 7,05% í 26 milljón króna viðskiptum.

Viðskipti með bréf Marel, sem hækkaði um 1,51%, stóðu undir yfir helmingi allrar veltu dagsins, nánar tiltekið rúmum 700 milljónum af 1,3 milljarða heildarviðskiptum. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,28%.

Tryggingafélögin VÍS og Sjóvá tróndu á toppnum í dagslok með 3,35% og 2,25% hækkanir í 100 og 125 milljón króna viðskiptum, en Arion var fast á hæla Sjóvár með 2,20% hækkun í litlum 5 milljón króna viðskiptum.

Á eftir Icelandair lækkuðu bréf Reita mest, um 1,07% í 6 milljóna viðskiptum, og næst bréf Skeljungs með 0,54% lækkun í 15 milljónum.