Icelandair mun fella niður 80 flugferðir í mars og apríl vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Það er um 2% af flugframboði félagsins á tímabilinu en félagið ráðgerir 3.500 flugferðir í mars og apríl.

Um síðustu helgi feldi félagið afkomuspá sína úr gildi fyrir þetta ár vegna útbreiðslu veirunnar. Félagið segir í tilkynningu nú að það muni fylgjast grannt með stöðunni, fylgja öllum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og láta vita þegar fjárhagsleg áhrif liggi fyrir.

„Sá möguleiki að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum og viðhaldið sveigjanleika í leiðakerfinu er einn helsti styrkleiki Icelandair. Þannig höfum við með góðum árangri lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og aukið fjölda ferðamanna til Íslands umtalsvert undanfarið ár. Nú stöndum við frammi fyrir óvissu vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þeim áhrifum sem hún kann að hafa á starfsemi okkar. Heilsa og öryggi starfsmanna og viðskiptavina okkar er ávallt forgangsmál. Við vinnum nú að því að greina stöðuna, meta hugsanleg áhrif og mögulegar aðgerðir. Áhersla okkar er á að lágmarka áhrif á viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa félagsins," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu frá félaginu.

Færri farþegar i innanlandsflugi

Tilkynningin kemur samhliða birtingu á sætanýtingu félagsins í febrúar. Þar kemur fram að farþegum í febrúar hafi fjölgað um 8% milli ára. Farþegum til Íslands hafi fjölgað um 27%, farþegum frá Íslandi um 4% en tengifarþegum um 17%.

Þá nam herbergjanýting Icelandair hótela 76% sem er þremur prósentustigum lægra en í febrúar fyrir ári. Framboð hótelherbergja jókst um 12% en gistinóttum fjölgaði um 7%.

Þá fækkaði farþegum í innanlandsflugi um 10% milli ára en sætanýting þar var 70% en var 66% í febrúar fyrir ári. Sætaframboð í innanlandsflugi dróst saman um 12% milli ára vegna vályndra veðra.