Icelandair hefur ákveðið að fella niður flug til og frá Boston í dag vegna fellibylsins Sandy. Þetta er annar áfangastaðurinn sem fellur niður í dag vegna veðrahamsins en flugfélagið tilkynnti í gær að flug til og frá New York verði sömuleiðis felld niður.

NIðurfellingin á við flug félagsins FI631 frá Keflavík til Boston og flug FI630 frá Boston til Keflavíkur í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá Icelandair.

Fjöldi annarra flugfélaga hefur fellt niður flug til til og frá New York, Washington og víðar á austurströnd Bandaríkjanna en búist er við að fellibylurinn skelli á landinu annað hvort í dag eða í fyrramálið. Bandarískir fjölmiðlar segja hann líklega fara yfir New Jersey. Þá er talsverður viðbúnaður í New York en hlutabréfamarkaðirnir New York Stock Exchange og Nasdaq-markaðurinn verða lokaðir í dag og hefur verið mælt með því að starfsfólk fjármálafyrirtækja vinni heima. Bandaríska dagblaðið Los Angeles Times segir hugsanlegt, að markaðirnir verði lokaðir fram á miðvikudag. Þetta er fyrsta skiptið sem dyrum markaðanna er lokað vegna hamfara síðan tveimur þotum var flogið á Tvíburaturnana í New York fyrir ellefu árum.