*

föstudagur, 3. apríl 2020
Innlent 25. febrúar 2020 16:27

Icelandair fellur um 11% í viðbót

Gengislækkun flugfélagsins numið 18,5% á tveimur dögum. Öll félög lækkuðu í dag, Marel þó minnst í 1,3 milljarða viðskiptum.

Ritstjórn

Rautt var um að litast í kauphöllinni í dag, annan daginn í röð en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var sá dagur með mestu lækkanir í eitt og hálft ár. Í dag lækkaði gengi bréfa Icelandair mest annan daginn í röð, eða um 10,74%, í 273 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin niður í 6,9 krónur.

Þar með hefur lækkun hlutabréfavirðis flugfélagsins numið 18,5% síðustu tvo daga og hefur gengið ekki verið lægra síðan 31. október síðastliðinn, en þá var það 6,67 krónur Lægst fór það hins vegar 21. október þegar það fór í 5,5 krónur.

Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa fasteignafélagsins Reginn, eða um 4,86%, niður í 133,50 krónur, í 183 milljóna króna viðskiptum. Loks var þriðja mesta lækkunin á gengi bréfa Festi, eða um 4,64%, í 576 milljóna króna viðskiptum, og fór gengið niður í 133,50 krónur.

Minnst lækkun í dag var á gengi bréfa Marel, eða um 0,34%, í jafnframt langmestu viðskiptunum eða fyrir 1.276 milljónir króna og fór það í 585 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Kviku banka, eða fyrir 763 milljónir króna, og fór gengið niður um 1,08%, í 10,04 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru með bréf hins bankans í kauphöllinni, Arion banka, eða fyrir 711 milljónir króna en bréf hans lækkuðu um 1,91%, niður í 82,30 krónur.

Pundið komið í ríflega 166 krónur

Íslenska krónan lækkaði gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, nema gagnvart sænsku og norsku krónunni sem báðar veiktust gagnvart þeirri íslensku, eða um 0,11%, í 13,132 krónur sú sænska og um 0,63%, í 13,619 krónur, sú norska.

Danska krónan styrktist hins vegar eilítið, eða um 0,01%, í 18,584 krónur kaupgengið, en evran stóð í stað í 138,84 krónum. Breska pundið styrktist langmest, eða um 0,64%, í 166,34 krónur, en Bandaríkjadalur styrktist um 0,09%, í 127,98 krónur.