*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 7. september 2020 16:23

Icelandair fengið langmest

Ríkissjóður hefur greitt Icelandair 2.875 milljónir króna í stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Alexander Giess
Haraldur Guðjónsson

Icelandair hefur fengið um 2.875 milljónir króna greiddar frá ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti vegna 1.889 starfsmanna. Næst mest hefur Flugleiðahótel fengið eða um 452 milljónir króna vegna 480 starfsmanna.

Þetta kemur fram á vef Skattsins þar sem birt er yfirlit yfir þau félög sem hafa fengið stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar fyrir mánuðina maí, júní og júlí. Af persónuverndarsjónarmiðum er fjöldi launamanna einungis birtur í þeim tilvikum að þeir eru 20 eða fleiri.

Íslandshótel hafa fengið um 436 milljónir króna vegna 467 starfsmanna og Bláa Lónið hefur fengið 425 milljónir vegna 540 starfsmanna. Ferðaþjónustufyrirtæki nær einoka listann.

Icelandair Group fengið ríflega 3.100 milljónir

Enn fremur hefur Iceland Travel, sem er innan Icelandair Group, fengið 116 milljónir króna greiddar vegna 82 starfsmanna. Flugleiðahótel, sem er í 25% eigu Icelandair, hefur eins og áður sagði fengið 452 milljónir og hluti Icelandair Group af þeim styrk því 113 milljónir.

Sjá einnig: 3,2 milljarðar vegna uppsagnarfrests

Samtals hefur Icelandair Group fengið um 3.104 milljónir króna greiddar vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Félagið hafði gert ráð fyrir að fá um 3.200 milljónir greiddar vegna aðgerðarinnar.