Flugfélagið Icelandair flutti 388 þúsund farþega í millilandaflugi í september. Er það 23% aukning frá sama tíma í fyrra og sætanýtingin nam 81,1% samanborið við 83,1% í september 2015. Þetta kemur fram í nýjum flutningatölum Icelandair Group fyrir september.

Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru um 31 þúsund í september og þar hefur einnig verið 17% aukning milli ára. Fram kemur að seldir blokktímar í leiguflugi jukust um 7% milli ára og fraktflutningar jukust um 14% frá því í fyrra.

Fjöldi seldra gistinótta félagsins jókst um 24% á milli ára og herbergjanýtingin var sömuleiðis betri en í fyrra. Í september á þessu ári var hún 90% samanborið við 83,4% í september í fyrra.