Nokkuð rólegur mánudagur er að baki í Kauphöll Nasdaq á Íslandi þar sem flugfélagið Icelandair bar höfuð og herðar yfir önnur félög á Aðalmarkaði hvað gengishækkanir varðar. Hækkaði gengi félagsins um 3,53% í 181 milljóna króna veltu. Í dag opnuðu landamæri Bandaríkjanna á nýjan leik og má ætla að það hafi vakið bjartsýni meðal fjárfesta.

Gengi þriggja annarra félaga, Haga, Skeljungs og Eimskips, hækkaði í viðskiptum dagsins en í öllum tilfellum var innan við 1% hækkun að ræða.

Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Eikar lækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 2,4% í 183 milljóna króna veltu. Næst mest lækkaði gengi VÍS eða um 1,85% í 34 milljóna króna veltu. Fast á hæla tryggingafélagsins fylgdi Festi, með 1,79% lækkun í 85 milljóna króna veltu.

Heildarvelta viðskipta á Aðalmarkaði nam 1,7 milljörðum króna og lækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 0,33%. Stendur gengi vísitölunnar í 3.361,48 stigum í kjölfarið.