Dótturfélag Icelandair Group, Air Iceland Connect, áður Flugfélag Íslands, flutti fleiri farþega innanlands í september, eða 12.757 heldur en flugfélagið flutti til og frá landinu, sem voru samtals 11.869.

Þar af flutti félagið einungis 5.800 farþega til landsins og 5.900 frá Íslandi. Samdrátturinn frá september fyrir ári nemur 97% en félagið segir í tilkynningu skýringuna vera auknar hömlur í sóttvörnum sem tóku gildi 19. ágúst.

Það þýddi að sætisnýtingin fór úr því að vera 80,5% í september 2019, í 45,5% í september á þessu ári, en framboðið af flugi var jafnframt mun minna.

Innanlandsflugið dróst einnig saman, um rúmlega helming eða 52%, milli ára í mánuðinum, en framboðið dróst saman um 57%. Sætanýting í innanlandsfluginu minnkaði einnig, eða úr 73,0% í 66,1%.

Í leiguflugi fækkaði flugtímum um 81%, en fraktflugið dróst saman um 18%, mælt í tonnum á kílómetra.