Icelandair Group hefur gert samning við flutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker um að minnsta kosti 45 fraktflug á milli Shanghæ í Kína og Munchen í Þýskalandi með lækninga- og hjúkrunarvörur fyrir aðila í heilbrigðisþjónustu í Evrópu. Þá verða jafnframt nokkur flug frá Shanghæ til Chicago í Bandaríkjunum með viðkomu á Íslandi. Um er að ræða dagleg flug til Kína en fyrsta flugið fer frá Íslandi á morgun, laugardaginn 25. apríl.

Þremur Boeing 767 breiðþotum Icelandair verður breytt tímabundið fyrir verkefnið sem kom til eftir samstarfi Icelandair Group og DB Schenker í tengslum við flutning á lækna- og hjúkrunarvörum til Íslands fyrir skemmstu.

Icelandair Cargo og Loftleiðir Icelandic, dótturfélög Icelandair Group hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd verkefnisins en á annað hundrað starfsmanna Icelandair Group munu koma að verkefninu. Hver áhöfn telur 12 manns – flugmenn, flugvirkja og hlaðmenn – og þá koma tugir annarra starfsmanna að verkefninu við undirbúning og skipulagningu. Auk þess fer breyting á flugvélunum fram hér á landi.

Til viðbótar er félagið að ganga frá samningi um leigu á fjórðu Boeing 767 vélinni til annara aðila sem áforma einnig fraktflug milli Kína og Evrópu með samskonar varning.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group segir þetta ánægjulegur áfangi á krefjandi tímum enda sé alþjóðleg samkeppni um slík verkefni er mikil um þessar mundir. „Það sýnir þá víðtæku sérþekkingu sem félagið býr yfir og útsjónarsemi starfsfólks sem oft kemur fram við erfiðar aðstæður. Þá búum við einnig yfir þeim sveigjanleika að geta brugðist hratt við og tekist á við verkefni sem þetta, með stuttum fyrirvara. Þarna sameinast reynsla okkar og þekking á fraktflutningum og skipulagningu leiguflugs, ásamt tengslaneti víða um heim. Einnig hafa sérfræðingar okkar í tæknideild Icelandair ráðist í það óvenjulega verkefni að endurhanna farþegarými vélanna til þess að hægt sé að flytja frakt í stað farþega. Þetta eru mikilvægar tekjur fyrir félagið af flugvélum sem annars hefðu setið á jörðinni án verkefna í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja í dag. Þá skapar þetta jafnframt verkefni fyrir fólkið okkar, en undirbúningur, skipulag og framkvæmd fer öll fram hér á landi, ásamt fluginu sjálfu, með okkar frábæra starfsfólki," er haft eftir Boga í tilkynningu frá Icelandair.