Icelandair stendur  vel að vígi á Norðurlöndunum og er með mesta tíðni fluga frá Norðurlöndunum og vestur um haf til Ameríku auk þess sem flugtíminn er í mörgum tilfellum styttri. Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, segir í pistli á vb.is að samningur við JetBlue tryggi að Icelandair geti boðið farþegum sínum að fljúgja áfram á tugi áfangastaði í Bandaríkjunum og Mið-Ameríku. Og samningurinn gildir auðvitað líka í hina áttina fyrir farþega sem vilja fara frá Ameríku til Evrópu í gegnum Keflavík.

Bókað alla leið

Airbus A320-200 vél í eigu JetBlue.
Airbus A320-200 vél í eigu JetBlue.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Gísli Freyr segir að gera megi ráð fyrir því að þessi samningur komi Icelandair til góða þegar fram sækir – og ef vel gengur, núna strax í sumar. „Tökum dæmi af einstakling sem þarf að komast frá meginlandi Evrópu eða Norðurlöndunum til miðríkja eða vesturstrandar Bandaríkjanna – eða öfugt. Nú hefur þessi einstaklingur möguleika á því að bóka alla ferðina á einum stað og nýtur þá um leið allra þeirrar ábyrgðar og trygginga sem á þarf að halda. Ef vél Icelandair seinkar til New York þá ber JetBlue samt að taka við farþeganum og koma honum á áfangastað."

New York skipti máli

Þetta er auðvitað vissu leyti svar við samkeppni á þessum flugleiðum. Nýjasta útspil Delta Air Line, að fljúgja milli New York og Íslands þrisvar í viku er dæmi um það.

En Iceland Express, sem notast við vélar og flugskírteini breska félagsins Astreus, hefur einnig veitt Icelandair mikla samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Þá má sérstaklega nefna Lundúnir, Kaupmannahöfn og nú New York sem vinsæla áfangastaði. Það var þó ekki fyrr en Iceland Express fór að fljúga til New York í fyrra sem félagið fór að veita Icelandair samkeppni sem einhverju máli skiptir, þ.e. að koma farþegum frá Evrópu til Ameríku.

Delta þarf að reiða sig á íslensku flugfélögin til Evrópu

Gísli Freyr bendir einnig á í þessu samhengi að Delta hefur auglýst mikið hér á landi og býður viðskiptavinum sínum áframhaldandi flug til 35 áfangastaða í Bandaríkjunum. Þó bera að hafa í huga að mati Gísla að íslenski markaðurinn einn og sér er lítill og því ekki mjög eftirsóknarverður af risa eins og Delta. „Hins vegar getur leggurinn til Keflavíkur eins virkað í hina áttina, að félagið geti boðið bandarískum viðskiptavinum sínum frá 35 áfangastöðum í Bandaríkjunum að komast til Íslands í gegnum New York. Áhugamenn um gjaldeyristekjur hefðu líklega ekkert á móti því," skrifar Gísli.

Eitt áhugavert í þessu sambandi er að farþegar Delta þurfa að kaupa flug af Iceland Express eða Icelandair til að halda áfram til Evrópu. Innkoma Delta getur því komið sér vel fyrir leiðir sem þessi félög selja til Evrópu.

Pistil Gísla Frey Valdórssonar má lesa í heild undir skoðunum eða með því að ýta hér .