Icelandair hóf í dag áætlunarflug til Orly flugvallarins í París. Icelandair hefur boðið upp á flug til og frá París um Charles De Gaulle flugvöllinn, en býður nú upp á flug á báða vellina. Kemur þetta fram í tilkynningu frá félaginu.

Orly er 27. áfangastaður Icelandair í Evrópu, auk þess sem félagið flýgur til 16 áfangastaða í Norður-Ameríku. Orly er fjórði nýi áfangastaðurinn á þessu ári, auk Aberdeen, Chicago og Montreal.

Á þessu ári eru 40 ár frá því Icelandair hóf flug til Parísar. Lengi framan af var einmitt flogið á Orly flugvöllinn sem var aðal flugvöllur Frakklands áður en Charles De Gaulle var byggður á áttunda áratug síðustu aldar. Tæplega 30 milljón farþegar fara um Orly árlega og er völlurinn sá 13. stærsti í Evrópu.