Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Billund í Danmörku og Gautaborgar í Svíþjóð næsta sumar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en samkvæmt henni verður flogið þrisvar í viku til Billund og tvisvar í viku til Gautaborgar á tímabilinu júní til september.

Þá kemur einnig fram að sala til þessara áfangastaða hófst fyrir nokkru. Unnið hafi verið að undirbúningi þessa flugs um skeið og tengist það auknu flugi Icelandair til New York og Boston, sem kynnt var á dögunum.

„Báðir þessir áfangastaðir eru viðskiptavinum og starfsfólki Icelandair að góðu kunnir. Icelandair flaug síðast í áætlunarflugi til Gautaborgar sumarið 2008 og sömuleiðis hefur Icelandair um árabil flogið  leiguflug til Billund í samstarfi við ferðaskrifstofur,“ segir í tilkynningunni.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að með þessu sé félagið að fjölga áfangastöðum sínum á Norðurlöndunum úr sjö í níu. Næsta sumar muni Icelandair fljúga til Osló, Bergen, Stavanger og Þrándheims í Noregi, til Kaupmannahafnar og Billund í Danmörku, til Stokkhólms og Gautaborgar í Svíþjóð og Helsinki í Finnlandi.

„Við sjáum fram á vöxt á næsta ári og bjóðum viðskiptavinum á leið til og frá Skandinavíu fleiri valkosti með þessum nýju áfangastöðum", segir Birkir Hólm.