Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, hefur lagt inn beiðni til samgönguráðuneytis Bandaríkjanna um leyfi til að fljúga á milli Bandaríkjanna annars vegar og Kúbu, Ekvador og Dóminíska lýðveldisins hins vegar. Um er að ræða leiguflug fyrir Anmart Air, í eigu ferðaheildsalans Anmart Superior Travel, en þau verða 276 talsins að því er kemur fram í grein á vefsíðunni Airline Geeks.

Flugferðirnar munu flestar vera frá Miami, eða 238 af 276 flugferðum. Sautján flugferðir verða á milli Houston í Texas fylki og Havana í Kúbu og 21 flugferðir á milli Orlando í Flórída fylki og Havana. Flugferðirnar verða nær allar á sama tímabili, frá byrjun febrúarmánaðar til lok maímánaðar, fyrir utan fjórar flugferðir frá Orlando til Havana í janúarmánuði.

Sjá einnig: Icelandair flýgur á milli Flórída og Kúbu

Icelandair hafði nú þegar hafið vikuleg leiguflug á milli Flórída og Kúbu á síðasta ári auk þess að fljúga á milli Punta Arenas í Chile og Union Glacier á Suðurskautslandinu, meðal annars fyrir fólk sem hyggst ganga á Suðurpólinn.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári að viðræður stæðu yfir við Anmart Air um að stækka samstarfið og að bæta við flugum. Nú hafa þær viðræður borið árangur og mun Icelandair bæta við fyrrnefndum flugum að undangengnu samþykki samgönguráðuneytis Bandaríkjanna.