Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til bandarísku borgarinnar Kansas City. Flogið verður þrisvar í viku frá 25. maí til septemberloka. Sala farseðla er þegar hafin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Borgin er 21. áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu.

„Kansas City flugvöllur er sá stærsti í Bandaríkjunum þar sem ekkert beint flug til Evrópu er í boði. Með nágrannaborgum er íbúafjöldi svæðisins um 5 milljónir og Icelandair því að opna stóran spennandi markað fyrir íslenska ferðaþjónustu og styrkja tengiflug félagsins til og frá Evrópu“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair.

Kansas City er staðsett í miðjum Bandaríkjunum á mörkum fylkjanna Kansas og Missouri á sléttunum miklu. Saga borgarinnar tengist gjarnan villta vestrinu og amerískri menningu. Hún var heimabær útlagans Jessie James, þar teiknaði Walt Disney fyrst Mikka mús á námsárum sínum og Count Basie kynnti „swing“ tónlist fyrst á fjölmörgum jassklúbbum borgarinnar. Í dag er borgin um margt dæmigerð amerísk stórborg  sem býður upp á fjölbreytt menningar- og viðskiptalíf, vetingastaði og aðra afþreyingu.

Flugáætlun Icelandair í ár verður sú umfangsmesta í sögu félagsins en Kansas City er fjórði nýi áfangastaðurinn í flugáætlun Icelandair á árinu 2018. Áður hefur verið tilkynnt um að flug hefjist til  Cleveland og Dallas í Bandaríkjunum og Dublin á Írlandi, auk Berlínar sem bættist við leiðakerfið sl. nóvember.

Nú í vor mun Icelandair taka í notkun þrjár nýjar 160 sæta Boeing 737 MAX 8 flugvélar og verða alls 33 flugvélar nýttar til farþegaflugsins í sumar, 26 af Boeing 757 gerð og fjórar af Boeing 767-300 gerð auk nýju vélanna.