*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 20. september 2021 16:16

Icelandair flýgur yfir rauðan sjó

Hlutabréfagengi nítján af tuttugu félaga aðalmarkaðar Kauphallarinnar lækkaði í dag en Icelandair hækkaði um 2,4%.

Ritstjórn

Úrvalsvísitalan lækkaði um 3% í 5,4 milljarða króna veltu í dag. Nítján af tuttugu félögum aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins, þar af lækkaði hlutabréfaverð átján félaga um meira en eitt prósent.

Lækkanir á mörkuðum hafa varið raktar til lausafjárkrísu kínverska fasteignafélagsins Evergrande og möguleg áhrif hennar á kínverska hagkerfið. Þá er einnig talið að skoðanakannanir um fylgi flokka valdi lækkunum á íslenska hlutabréfamarkaðnum vegna aukinna líkna á að vinstri stjórn taki við eftir kosningar.

Sjá einnig: Evergrande skjálfti á mörkuðum

Icelandair var eina félagið sem hækkaði á aðalmarkaðnum í dag. Flugfélagið byrjaði daginn rautt líkt og gengi félagsins stóð í 1,39 krónum á hlut um hádegisleytið. Dagslokagengi icelandair endaði þó í 1,47 krónum, sem er um 2,4% hækkun frá lokun markaða í gær og 5,7% hækkun frá því fyrr í dag. Á First-North markaðnum hækkaði flugfélagið Play einnig um 0,5% en þó aðeins í 18 milljóna króna viðskiptum.

Skeljungur lækkaði mest allra félaga á markaðnum eða um 5,3% en velta með bréf olíufyrirtækisins nam hins vegar aðeins 13 milljónum. Kvika og Brim lækkuðu einnig bæði um meira en 4%. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkaði um 3,8%. Gengi Arion stendur nú í 162,5 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð Marels lækkaði sömuleiðis um 3% í 712 milljóna veltu og nemur nú 904 krónum á hlut. Gengi Íslandsbanka féll um 3,1% og stóð í 116,8 krónum við lokun Kauphallarinnar.