Icelandair Group áætlar að auka tíðni á flugum til stærri áfangastaða sinna og stækka leiðarkerfi félagsins strax á næsta ári, 2019. Segjast þeir geta aukið fjölda ferðamanna til landsins um 350 þúsund á næsta ári miðað við óbreytta samsetningu farþega.

Þetta kemur fram í kynningu sem birt var á hluthafafundi félagsins í morgun, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun var þar jafnframt samþykkt að auka hlutafé félagsins um 625 milljónir hluta að nafnvirði.

Hlutafjáraukningin var samþykkt þrátt fyrir að félagið hefði hætt við áætluð kaup á Wow air, sem Viðskiptablaðið greindi frá að sé komið með nýjan fjárfesti, sem byggt hefur upp fjölda lágjaldaflugfélaga um allan heim.

Í hluthafakynningunni segir að allt að 10 áfangastaðir séu í skoðun hjá Icelandair fyrir aukningu á tíðni flugferða, sem og áætlað er að bæta nýtingu núverandi áfangastöðum.

Auka sætaframboð um 35%

Loks er í skoðun að stækka leiðarkerfið með fjölgun áfangastaða, þar með talið með því að bæta við sumarleyfisáfangastöðum. Þannig telur félagið sig geta aukið framboð í sætafjölda um allt að 35%.

Þannig hyggst félagið fjölga um þrjár vélar á næsta ári, en jafnframt hyggst félagið lengja líftíma núverandi flota. Segir félagið mikil tækifæri fyrir innri vöxt til skemmri tíma með samræmdum flota Boeing véla.

Innleiðing tveggja nýrra tengibanka á árinu 2019 muni jafnframt auka möguleika á bættri nýtingu flotans, og það jafngildi framboðsaukningu 4-5 véla. Þar komi jafnframt tækifæri til að semja við flugmenn um viðauka við kjarasamning sem gildi á ákveðnum vélum á nýjum mörkuðum.