Á fyrsta ársfjórðungi 2010 eykur Icelandair framboð sitt um 20% frá sama tíma árið 2009.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að bókanir fyrir fyrsta ársfjórðung, þ.e. janúar, febrúar og mars, hafa farið vel af stað, og eru nú 25% yfir því sem var á sama tíma fyrir ári. Þá segir jafnframt að bókunarstaða fyrir árið í heild sé góð.

„Eins og áður hefur komið fram stefnum við að auknu flugi á árinu 2010 og útlitið er nokkuð gott,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Við höfum séð íslenska markaðinn taka vel við sér og bókanir á honum eru 20% fleiri í upphafi árs en var í fyrra. Þá er mikil aukning í fluginu milli Evrópu og Norður-Ameríku um Keflavíkurflugvöll og von á fleiri ferðamönnum til landsins með Icelandair en komu á síðasta ári.“