*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 7. janúar 2020 11:04

Icelandair frestar öllu flugi úr landi

Raskanir á flugi Icelandair vegna veðurs það sem eftir lifir dags og í fyrramálið hafa áhrif á 8 þúsund farþega.

Ritstjórn
Ello verða fleiri brottfarir véla Icelandair frá Keflavíkurflugvelli að sinni.
Haraldur Guðjónsson

Vegna veðurs hefur ákvörðun verið tekin hjá Icelandair að aflýsa öllu flugi til og frá Keflavík eftir hádegi í dag og í fyrramálið. Gert er ráð fyrir að þessar raskanir muni hafa áhrif á yfir 8 þúsund farþega að því er félagið greinir frá í tilkynningu

Búið er að upplýsa alla farþega um röskunina og unnið er að endurbókun. Farþegar munu fá senda uppfærða ferðaáætlun í tölvupósti en geta einnig fylgst með „umsjón með bókun” á heimasíðu Icelandair.

Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir og þar geta farþegar jafnframt uppfært netföng og símanúmer þannig að hægt sé að koma skilaboðum til þeirra hratt og örugglega.

Flugi sem aflýst verður vegna veðurs:

  • Öllu flugi frá Evrópu í dag verður aflýst en um er að ræða 15 flug.
  • Öllum brottförum frá Keflavík til Bandaríkjanna og Kanada seinnipartinn í dag aflýst en um er að ræða 11 brottfarir og þá jafnmargar komur aftur frá Norður Ameríku.
  • Öllu flugi til Evrópu frá Keflavík í fyrramálið verður aflýst en það eru 14 brottfarir.

Icelandair hefur þegar haft samband við farþega vegna endurbókunar. Nokkur hundruð farþegar sem áttu flug frá Íslandi seinnipartinn í dag nýttu sér boð Icelandair um að ferðast degi fyrr en um 700 erlendir farþegar verða áfram hér á Íslandi og mun Icelandair útvega þeim hótelgistingu.

Þar að auki er verið að vinna í því að endurbóka tengifarþega sem eru að ferðast á milli Evrópu og Norður Ameríku með öðrum flugfélögum. Miðað við núverandi veðurspá, er gert ráð fyrir að flug verði á áætlun frá Keflavík seinnipartinn á morgun, miðvikudag

Stikkorð: Icelandair veður