Icelandair Group Holding hefur gert samning við Straum-Burðarás fjárfestingabanka um viðskiptavakt á útgefnum hlutabréfum félagsins, segir í tilkynningu. Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands hf.

Straumur-Burðarás fjárfestingabanki skuldbindur sig til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð í Kauphöll Íslands hf., í Icelandair Group Holding (ICEAIR) að lágmarki 500.000 að nafnvirði á gengi sem Straumur-Burðarás fjárfestingabanki ákveður í hvert skipti.

Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum skal ekki vera meiri en 1% og frávik frá síðasta viðskiptaverði ekki meira en 3%. Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern sem Straumur-Burðarás fjárfestingabanki er skuldbundinn til að kaupa eða selja skal vera krónur 150.000.000,- að markaðsvirði.

Icelandair Group Holding verður skráð í Kauphöllina í dag.