Flugfélagið Icelandair, sem er í eigu FL Group, hefur gert kauptilboð í breska leiguflugfélagið Astraeus, segir í frétt breska helgarblaðsins The Sunday Telegraph. Talið er að verðmiðinn sé í kringum 10 milljónir punda, eða rúmlega 1,3 milljarða íslenskra króna.

Í fréttinni segir að líklegt sé að önnur leiguflugfélög, svo sem Thomson, hafi einnig áhuga á að kaupa Astraeus. Einnig er reiknað með að fjárfestingasjóðir skoði leiguflugfélagið.

Astraeus flýgur mikið á olíusvæði, svo sem til Nígeríu, og til Evrópu. Stjórnendur félagsins eiga 65% hlut í félaginu en skoski fjárfestingasjóðurinn Aberdeen Murray Johnstone á 35%.

FL Group seldi nýverið 16,9% hlut sinn í easyJet og nam söluhagnaðurinn um tólf milljörðum króna. Áætlað er að skrá Icelandair í Kauphöll Íslands, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur skráningunni verið frestað tímabundið.