Icelandair Group getur lifað út maí án tekna miðað við lausafjárstöðu félagsins í byrjun marsmánaðar. Þetta kom fram í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra félagsins á starfsmannafundi sem lauk nú fyrir skömmu.

Í máli Boga kom fram a útfærsla umsvifamikla aðgerða sem meðal annars munu fela í sér uppsagnir liggur ekki enn fyrir en munu aftur á móti gera það fyrir lok mánaðarins. Á fundinum var Bogi meðal annars spurður að því hvernig fyrirkomulag uppsagna yrði. Svar hans var á þann veg að farið yrði eftir starfsaldri starfsfólks, þar sem það ætti við.

Þá sagði Bogi einnig að það væri krafa frá stjónvöldum að markaðslausn kæmi til áður en ríkið myndi koma fyrirtækinu til hjálpar. Í því felst að félagið þarf að fá inn nýtt hlutafé en Bogi sagði að það væri skýrt að til þess að það fjármagn og ríkisaðstoð fengist þyrfti félagið að sína fram á samkeppnishæfni til framtíðar.

Eftir heimsfaraldur Covid-19 hefur starfsemi Icelandair dregist saman og flýgur nú aðeins um 5% af hefðbundinni áætlun. Fyrir síðustu mánaðarmót var 92% starfsfólks sett á hlutabætur og á þriðja hundrað sagt upp störfum. Í vikunni sendi félagið tilkynningu til Kauphallarinnar þess efnis að endurskipulagning stæði yfir og ljóst væri að umtalsverðum fjölda starfsfólks yrði sagt upp. Vonir stæðu þó til að geta ráðið fólk að nýju þegar flugsamgöngur taka við sér á nýjan leik.

Heimildir blaðsins herma að stjórnendur félagsins bíði meðal annars efitr uppfærðri útfærslu hlutabótaleiðarinnar. Sú var samþykkt fyrir síðustu mánaðarmót af Alþingi og felur í sér að unnt er að lækka starfshlutfall niður í 25% og ríkið brúi bilið. Sé fólki aftur á móti sagt upp fær það greidd laun í uppsagnarfresti samkvæmt fyrra starfshlutfalli. Ýmis fyrirtæki vonast til þess að því verði breytt á þann veg að ríkið komi til móts við félögin í uppsagnarfresti. Ella blasi gjalþrot við mörgum.

Gengi bréfa í Icelandair lækkaði skarpt við opnum markaða í byrjun dags. Það sem af er degi hefur félagið fallið um rúmlega 13% í 160 milljón króna viðskiptum. Stærsti hluthafi félagsins, bandaríski sjóðurinn PAR Capital, hefur meðal annars minnkað hlut sinn í félaginu lítillega. Virði bréfa félagsins hefur dregist saman um í kringum 70% frá áramótum.