Þann 27. maí næstkomandi mun Icelandair Group greiða upp tæplega 50,7 milljónir Bandaríkjadala af skuldabréfi félagsins, eða sem samsvarar um 6,2 milljarði íslenskra króna. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um í haust virkjuðust kvaðir á hluta skulda félagsins þegar skilmálar bréfanna brustu við að EBITDA félagsins fór undir 98 milljónir dala.

Samdi félagið í framhaldinu við skuldabréfaeigendurna um frestun áhrifa þess að skilmálarnir virkjuðust og breytta skilmála . Kaus meirihluti eigenda þeirra með breytingunum sem fólu í sér að félagið getur nú greitt skuldabréfið upp .

Segir í tilkynningu Icelandair nú að eftir uppgreiðsluna nú sé um 40% af upphaflegri fjárhæð bréfanna, eða 76 milljónir dala, það er samsvarandi 9,3 milljarða íslenskra króna enn útistandandi. Fjárhæð skuldabréfanna nú er tæplega 126,7 milljónir dala, eða 15,5 milljarðar íslenskra króna.