Icelandair kynnir í dag aðgerðir til þess að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi vegna hækkandi eldsneytisverðs og óvissu í efnahagsmálum, eftir því sem segir í tilkynningu frá félaginu.

Aðgerðirnar fela í sér samdrátt í vetraráætlun fyrirtækisins, fækkun starfsfólks, skipulagsbreytingar, fækkun í stjórnendahópi og eldsneytissparandi aðgerðir í flugi.

Dregið úr áætlun

Icelandair tilkynnti í lok maí s.l. um breytingar á áætlun næsta vetrar sem fela meðal annars í sér að vetrarhlé verður lengt í flugi til og frá Minneapolis og heilsársflugi til Toronto og Berlín er frestað.

Flug til og frá Toronto í Kanada hófst í vor og mun halda áfram vorið 2009 eftir vetrarhlé. Hlé var gert á flugi til Minneapolis á síðasta vetri og nú verður það hlé lengt veturinn 2008-2009 og stendur frá októberlokum fram í mars.

Á síðasta vetri var ekki flogið til Berlínar og áformum um heilsársflug þangað hefur verið frestað. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á vetraráætlun félagsins, meðal annars verður dregið úr flugi til Parísar en flug aukið til New York. Einnig verða felld út einstök flug á nokkrum leiðum.

Þessar breytingar nema um 14% samdrætti milli vetraráætlana.

Fækkun starfsmanna

„Við þessar breytingar er ljóst að starfsmannaþörf félagsins minnkar og því er gert ráð fyrir að stöðugildi hjá Icelandair muni fækka um 190, úr um 1230 á síðasta vetri í 1040 í vetur,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að vegna þess að sumir eru í hlutastörfum mun starfsfólki í heild fækka um 240 einstaklinga. Þar af fá rúmlega 200 uppsagnarbréf fyrir lok júnímánaðar, 64 flugmenn og 138 flugfreyjur, en einnig fækkar starfsmönnum á tæknisviði, flugumsjónarmönnum og starfsmönnum á söluskrifstofum félagsins, að hluta með uppsögnum og að hluta með því að ekki er ráðið í störf sem losna.

„Í heild mun fækka í starfsmannahópi Icelandair um 240 einstaklinga í haust, umfram þá breytingu sem jafnan fylgir því að mun meiri umsvif eru í flugi á sumrin en veturna. Við uppsagnirnar er farið að lögum um hópuppsagnir og haft samráð við viðkomandi stéttarfélög. Boðið er upp á ráðgjöf og aðstoð fyrir þá sem missa atvinnuna,“ samkvæmt tilkynningu Icelandair.

Skipulagsbreytingar og fækkun stjórnenda

Samhliða þessum samdrætti í flugáætlun og starfsmannafjölda Icelandair hafa verið gerðar skipulagsbreytingar sem miða að því að einfalda ferla og draga úr kostnaði. Lagðar hafa verið niður deildir og þær sameinaðar öðrum í höfuðstöðvum hér á landi og á skrifstofum félagsins erlendis.

Þá kemur fram í tilkynningu Icelandair að millistjórnendum hefur verið fækkað og sem dæmi má nefna að forstöðumönnum innan Icelandair hefur verið fækkað úr fimmtán í sjö.

„Þetta hefur verið gert með því að ráða ekki í störf sem losna og með uppsögnum. Samhliða er einnig gert átak til þess að draga úr öðrum rekstrarkostnaði,“ segir í tilkynningunni.

Sparnaðaraðgerðir í flugi

Í tilkynningu Icelandair kemur fram að hrint hefur verið í framkvæmd margháttuðum aðgerðum til að ná fram eldsneytissparnaði í flugi félagsins, til þess að draga úr áhrifum hækkandi eldneytisverði.

Átak er gert til þess að létta flugvélarnar eins og unnt er með nákvæmari hleðslu, og sparnaði er náð fram með því að draga úr hraða og breyta vinnuaðferðum við aðflug.

Tengdar fréttir:

„Í heild eru þetta aðgerðir sem við erum sannfærð um að styrkja Icelandair til framtíðar"

Ólík staða fyrirtækja innan Icelandair Group

Framkvæmdastjóri Icelandair: „Þá liggur við að það sé betra að láta vélarnar standa í Keflavík“