Dótturfélög Icelandair Group fluttu 101 þúsund farþega í desember, sem er 6% aukning á milli ára. Þá fluttu félögin alls um 1.660 þúsund farþega á árinu 2009 sem er um 10% fækkun á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group sem nú sendir mánaðarlega frá sér flutningstölur auk þess sem heildaryfirlit yfir síðasta ár liggur nú fyrir.

Sem fyrr segir fækkar farþegum hjá samstæðunni um 10% á milli ára þegar félög samstæðunnar fluttu tæplega 1.840 þúsund farþega.

Tekjur samstæðunnar á hvern farþega jukust um 15% í desember á milli ára, en lækkuðu þó um 9% á milli ára á síðasta ári. Þannig nema tekjurnar á síðasta ári um 3,5 milljörðum króna, samanborið við tæpa 3,9 milljarða árið 2008.

Samdrátturinn í fraktflugi samstæðunnar heldur áfram að lækka en í nóvember nam samdrátturinn 16% á milli ára. Þannig nemur samdrátturinn árið 2009 um 28% á milli ára.

Eins og áður hefur verið greint frá er Travel Service, frá og með nóvember 2009, ekki lengur í meirihlutaeigu Icelandair Group og er því eru tölur vegna þess ekki í mánaðarlegum flutningatölum. Þá hafa tölur frá 2008 jafnframt verið uppfærðar vegna þessa.

Farþegum til Íslands fjölgar um 9% á milli ára

Ef aðeins er horft til Icelandair, sem er langstærsta dótturfélag samstæðunnar, þá var sætanýtingin í reglulega áætlunarflugi 75% á síðasta ári, sem er sama sætanýting og árið 2008 og svipuð og fjögur undanfarin ár. Icelandair dró úr flugframboði sínu um 9% frá árinu á undan og farþegum fækkaði því einnig um 9% og voru alls um 1,3 milljónir á árinu 2009.

Icelandair skiptir farþegum sínum gjarnan eftir þremur mörkuðum, þ.e. ferðamenn á leið til Íslands, Íslendinga á leið til útlanda og farþega á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Á árinu 2009 varð umtalsverð breyting á hlutföllum milli þessara þriggja markaðshópa. Farþegum til Íslands fjölgaði um 9%, og fóru úr 40% í 49% allra farþega félagins. Þetta hlutfall erlendra ferðamanna meðal farþega Icelandair hefur aldrei verið svo hátt áður. Íslendingar á leið til útlanda voru um 22% farþega Icelandair á árinu 2009. Þeir voru 31% á árinu 2008, og fækkaði um þriðjung milli ára. Farþegar á leið um Keflavíkurfluguvöll milli heimsálfanna voru 29% af heildinni, líkt og á árinu 2008.

„Þessar tölur staðfesta góðan árangur af þeim áherslubreytingum sem við gerðum í ljósi þeirra áhrifa sem fall bankanna hefur haft á eftirspurn og gengi gjaldmiðla", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningu frá félaginu.

„Við sáum fyrir samdrátt í ferðum Íslendinga á árinu 2009 vegna stöðu efnahagsmála hér á Íslandi, en nýttum okkur lágt gengi krónunnar og fjölmiðlaathygli til þess að auka sölu til Íslands á erlendum mörkuðum umtalsvert og fjölga hér ferðamönnum. Þá hefur þátttaka okkar í alþjóðafluginu milli Evrópu og Norður-Ameríku skilað góðum árangri. Rekstur Icelandair á árinu 2009 gekk því vel, ekki síst ef litið er til þess að árið hefur verið mjög erfitt í alþjóðlegum flugrekstri", segir Birkir.