IFS greining telur Icelandair Group vera áhugaverðan langtíma fjárfestingarkost eftir að greiningaraðilar endurskoðuðu verðmat félagsins eftir birtinu ársfjórðungsuppgjörs nýverið. Uppgjörið var heldur yfir væntingum IFS greiningar, tekjuvöxtur var mikill og útlitið fyrir þriðja ársfjórðung, mikilvægasta kafla ársins, gott.  Þrátt fyrir verulega hækkun á gengi bréfa félagsins frá áramótum er ráðgjöf IFS greiningar frá því í febrúar óbreytt þegar mælt var með kaupum á bréfum félagsins.

Góðar horfur

Ráðgjöf IFS greiningar byggist á nokkrum þáttum. "Í fyrsta lagi er útlitið fyrir árið gott og hefur þriðji ársfjórðungur farið vel af stað. Félagið hefur gefið út afkomuspá sem hljóðar upp á 9,5 milljarða króna EBITDA-hagnað. Sú spá var ítrekuð í síðustu viku. Við teljum að miklar líkur séu fyrir hendi að félagið uppfæri spána til hækkunar að öllu óbreyttu þegar niðurstaða þriðja ársfjórðungs liggur fyrir. Í öðru lagi er áfram reiknað með ágætum vexti ferðamannaiðnaðarins hér sem annars staðar á næstu árum þrátt fyrir vaxandi óróa á mörkuðum. Í þriðja lagi skoðar félagið tvíhliða skráningu í norræna kauphöll. Það gæti dregið úr óvissu með eignarhald á félaginu, laðað að erlenda fjárfesta, aukið seljanleika og verðmyndun með bréfin og stutt við framtíðarfjármögnun," segir í greingarefni IFS.

Spá hækkandi markgengi

Niðurstaða sjóðstreymismats IFS greiningar á Icelandair Group er 5,63 krónur á hlut. Til samanburðar var síðasta gengi félagsins 5,10 krónur á hlut og mat IFS greiningar frá því í febrúar hljóðaði upp á 5,37 krónur á hlut. Samkvæmt mati greiningaraðila er undirliggjandi rekstur félagsins meira virði en viðskiptagengið gefur til kynna og eigi þannig 10% hækkun inni. IFS metur í framhaldi af því að gengi félagsins, fari upp í 6,0 krónur á hlut á næstu sex til tólf mánuðum.